Thursday, October 31, 2013

Miðbæjar Rómantík

Þegar að ég fékk íbúð í miðbænum sá ég fyrir mér upphaf undursamlegs ástarsambands á milli mín og 101. 
Að rölta Laugarveginn með góðri vinkonu, setjast inn á kaffihús og slaka á. 
Fylgjast með mannlífinu og reyna að spotta hverjir eru túristar og hverjir eru íslendingar (ekki að það sé eitthvað erfitt, túristar eru auðþekkjanlegir á bakpokum sínum og litríkum úlpum). 
Væntanlega verð ég ástfangin á litlu kaffihúsi þar sem ég spotta mann svipaðann Gene Kelly, ég tek eftir honum þar sem að við erum að lesa sömu bókina. Við verðum ástfangin á svipstundu og saman valhoppum við í rigningunni, vopnuð regnhlífum, niður laugarveginn.

Síðan áttaði ég á mig að líklega mun ekkert af þessu gerast. Ástarsamband mitt og miðborgarinnar er ekkert nema létt vinasamband og Gene Kelly-legann mann mun ég aldrei verð ástfangin af eftir bókalestur. Ég drekk ekki kaffi svo kaffihúsaferðir eru óþarfar og þar fyrir utan hef ég engann tíma í annað en að læra, hvað þá lesa einhverjar skáldsögur! 


Miðbæjar-rómantíkin í dag hljóðaði upp á eitt stykki stöðumælasekt og mjög svo undarlegt atvik.

Ég var í mínum mestu makindum í sturtu, að gera mig kaffihúsa hæfa þar sem ég hafði ákveðið vinkonudeit með Heklunni minni. 
Útidyrabjallan hringir og þar sem að baðherbergið er við hliðina á hurðinni bözza ég hringjandanum inn (sem ég taldi 100% líkur á að væri einfaldlega hún Hekla), opnaði hurðina á íbúðinni og kallaði "KOMDU BARA INN, ER Í STURTU!!". 
Aldeilis var það ekki góðvinkona mín sem var að koma í heimsókn!!
Ég heyri karlmann segja "ööö.. óóókei.. blablabla (náði ekki hvað hann sagði því að í panikki mínu SKELLTI ég hurðinni og lokaði mig inni á baði. Hafði ég í alvörunni hleypt einhverjum manni inn sem gæti þess vegna verið raðmorðingi, hafði hann séð mig nakta(?!) og hvað átti ég nú að gera? 

Ég held að ég hafi heyrt einhvern hlaupa upp stigann og útidyrahurðina skella svo vonandi fór manngreyjið bara aftur út og áttaði sig á að líklega var Kolbrún Gunnars ekki manneskjan sem hann ætlaði að heimsækja. Ég álasa að vísu ekki félaganum þar sem að letihaugurinn ég hef ekki enn nennt að finna út úr því hvernig maður skiptir um nafn á bjöllunni. 
Hvernig ætli þetta manngrey hafi sagt frá þessu atviki? Að hann hafi hringt bjöllu og rennandi blaut kona í sturtu hafi sagt honum að koma bara inn og bíða og hann hafi hlaupið í burtu, hræddur um líf sitt og sakleysi?!
Klikkaða kellingin á Bergþórugötunni! 

Í dag færði miðborgin mér sem sagt lítið annað en skömm og fjárútlát. Ég hinsvegar elska að búa hérna og líður ofboðslega vel í litlu holunni minni. 

"Og bárujárnshús við Bergþórugötuna
bíða þess að lifna eitt og eitt
af gleði og trú, bjartsýni æsku og von
barna sem hefja lífið þar."
Höf: Davíð Oddsson

-FrökenReykjavíkK

Wednesday, October 30, 2013

It's written in the stars

Mér þykir afskaplega gaman að lesa stjörnuspánna mína. Það er ekki það að ég telji það að í hvaða stjörnumerki við fæðumst muni skilgreina okkur sem manneskjur, það er meira þannig að þær láta mig alltaf fara að hugsa. Ég virðist líta meira inná við og hugsa um tilfinningar mínar frekar en að spá í hvernig fronturinn lítur út. 

Hinsvegar finnst mér magnað hvað stjörnumerkin eiga oft vel við! 
Vogir eru til dæmis oft á tíðum mjög óákveðnar, og það er ég einmitt, í yfirfylltum mæli. 

Skemmtilegustu stjörnuspárnar finnst mér koma frá Siggu Kling. Hún virðist alltaf hitta naglann á höfuðið og ég næ að tengja ótrúlega vel það sem er að gerast í lífi mínu við það sem hún skrifar. Stundum finnst mér eins og hún sé bara að skrifa spánna fyrir mig og engan annann. Þetta hef ég einmitt heyrt frá mjög mörgum. Þvílíkur hæfileiki sem konan hefur að skrifa eitthvað sem svo stórum hluta lesenda finnst tengjast sér! 

Sigga segir til dæmis í spánni fyrir vogina:
 "Mundu að hamingjan getur verið bak við hurð sem þú hélst að væri læst. Mundu það lika kæra vog að það að vera hamingjusamur þýðir ekki að allt sé fullkomið, enda yrði það nú dæmalaust leiðinlegt."

Ég hlakka mikið til þess að opna þessa hurð sem ég hélt að væri læst og ég er alveg sammála því að ef lífið væru dans á rósum alla daga myndi maður aldeilis hætta að kunna að meta góðu dagana.


Eigið yndislegann dag í rokinu og rigningunni elsku vinir!
-K