Tuesday, November 12, 2013

Veikindapési

Hver er Pési og af hverju er greyjið maðurinn kenndur við veikindi?
Ég er annars á degi tvö í flensu fjöri!
Tími minn er af skornum skammti vegna þess að ég þarf að læra. Næ ekkert að læra því að ég er með hafragrautaheila í dag. 
Mig hefur líklega aldrei langað jafn mikið í ræktina eins og í dag, en á þó erfitt með það einfalda verkefni að halda höfði.
Ég ætla að biðja alla sem þetta lesa að kveikja á kerti fyrir mig..
…nei okei sleppum dramatíkinni! En ef að ég kemst ekki upp úr þessu rúmi og næ að slétta úr "kolbrúnar farinu" sem hefur myndast í dýnunni bráðlega þá geng ég í sjóinn! 
Flensan er verkfæri djöfullsins, djöfull sé ég eftir því núna að hafa gleymt að skrá mig í flensusprautuna.


-K

Sunday, November 10, 2013

Auðtrúa

Þegar ég var lítil var ég vægast sagt mjög auðtrúa!

Hér er nokkrar lygar sem eru afar eftirminnilegar og mig langaði að deila með ykkur:

-Hulda systir laug að mér að ég héti Kolbrún Hrund en mamma og pabbi notuðu aldrei Hrundar nafnið því þeim þætti það svo ljótt. Þar að auki náði hún að ljúga að mér að Rúnar bróðir héti Rúnar Páll. 

-Elskulega systir mín laug líka að mér þegar ég var fimm ára að hún væri mamma mín en mamma hefði alið mig upp því Hulda hefði verið svo ung þegar hún eignaðist mig (s.s. 15 ára). Þessu trúði ég statt og stöðugt í fleiri, fleiri daga þangað til að mamma settist niður með mér og sagði mér að þetta væri bara lygi. 

-Hulda systir laug líka að mér að hestar væru ekki með tennur (eflaust til að ég myndi þora að gefa þeim hey). Þessu trúði ég alveg þangað til að ég var orðin svona 18 ára, þegar að Hulda varð fyrir þeirri reynslu að hún var bitin af hesti! Þá var elsku karmað alveg að standa sig í stykkinu.

-Magnþóra og Bjössi lugu að mér að þau hafi látið mig borða málingaflögur þegar ég var krakki og þess vegna væri eg svona skrítin! Ég var vægast sagt sár út í þau á tímabili en sem betur fer leiðréttu þau þetta, þegar ég var fjórtán ára!

-Enn og aftur var hún Hulda að ljúga að mér og laug að mér að maður fengi sýkingu í húðina (svokallaða svampasýki) ef maður myndi snerta berann svamp. Komst að þessari lygi þegar að ég var í bíó með Írisi og harðneitaði að setjast í sæti sem áklæðið var örlítið rifið vegna þess að ég hefði engann áhuga á að fá svampasýki. Írisi hefur líklega aldrei fundist ég vera jafn heimsk og á þessu augnabliki.

Annaðhvort hef ég ekki viljað trúa því upp á ættingja mína að þeir myndu ljúga að mér, eða ég hafi bara verið alveg snarheimskur krakki!



-K

p.s. update á bikinímálinu mikla! Fór í þynnkusund í gær í back-up bikiníinu mínu og auðvitað lenti ég í því að krækjan á bikiní toppnum opnaðist og það munaði litlu að heill pottur af fólki hefði séð á mér dúllurnar! Nú er ég búin að kaupa sundbol svo vonandi get ég farið að kíkja í sund án þess að sína sundgestum á mér sköpin og júllurnar!