Eitt af því sem ég veit að vinkonur mínar þola ekki við mig eru þessar blessuðu pælingar mínar með hárið á mér!
Toppur vs. ekki toppur?
Stutt vs. sítt?
Lita vs. ekki lita?
Ég er týpan sem lætur klippa á sig topp og eyðir svo næstu mánuðum í að safna honum.
Ég er líka týpan sem er loksins búin að ná að safna hárinu eins og ég vil hafa það (að ég hélt) og læt þá klippa helling af því af því að ég er orðin hundleið á hárinu á mér.
Ætli þessi issues mín eigi ekki rækjur sínar að rekja til þess þegar ég var sex ára og lét klippa 37 cm af hárinu á mér (aðeins styttra en á myndinni til vinstri hér að neðan) og stóð svo heilt kvöld fyrir framan spegilinn heima grenjandi yfir að hafa glatað hárinu. Mamma var búin að vara mig við, en ég nuðaði og tuðaði þangað til ég fékk að klippa mig. Mömmur hafa alltaf rétt fyrir sér og síðan þá hef ég reynt að fylgja því sem Gréta leggur til málanna í ákvarðanatökum.
Nú er ég auðvitað komni á þann stað að mig langi annað hvort að safna eða klippa! Stutta klippingin orðin úr sér gengin en ekki orðið nægileg sítt til að það sé eitthvað hægt að gera við það.
Mér finnst fara mér vel að vera með það stuttklippt en það sem mér þykir leiðinlegast er að geta ekkert gert annað en að vera með það slegið. Ég sakna svo fiskifléttunnar og að geta krullað mig.
Held að ég þurfi að ráða manneskju í vinnu við ákvarðanatöku.
Þetta er líklega eina ákvörðunin sem ég treysti ekki Bókinni með svörin til að taka fyrir mig.
-K