Saturday, March 8, 2014

Óþolandi gellan

Eitt af því sem ég veit að vinkonur mínar þola ekki við mig eru þessar blessuðu pælingar mínar með hárið á mér!
Toppur vs. ekki toppur?
Stutt vs. sítt?
Lita vs. ekki lita?

Ég er týpan sem lætur klippa á sig topp og eyðir svo næstu mánuðum í að safna honum.
Ég er líka týpan sem er loksins búin að ná að safna hárinu eins og ég vil hafa það (að ég hélt) og læt þá klippa helling af því af því að ég er orðin hundleið á hárinu á mér. 
Ætli þessi issues mín eigi ekki rækjur sínar að rekja til þess þegar ég var sex ára og lét klippa 37 cm af hárinu á mér (aðeins styttra en á myndinni til vinstri hér að neðan) og stóð svo heilt kvöld fyrir framan spegilinn heima grenjandi yfir að hafa glatað hárinu. Mamma var búin að vara mig við, en ég nuðaði og tuðaði þangað til ég fékk að klippa mig. Mömmur hafa alltaf rétt fyrir sér og síðan þá hef ég reynt að fylgja því sem Gréta leggur til málanna í ákvarðanatökum. 
Nú er ég auðvitað komni á þann stað að mig langi annað hvort að safna eða klippa! Stutta klippingin orðin úr sér gengin en ekki orðið nægileg sítt til að það sé eitthvað hægt að gera við það.
Mér finnst fara mér vel að vera með það stuttklippt en það sem mér þykir leiðinlegast er að geta ekkert gert annað en að vera með það slegið. Ég sakna svo fiskifléttunnar og að geta krullað mig. 
Held að ég þurfi að ráða manneskju í vinnu við ákvarðanatöku.
Þetta er líklega eina ákvörðunin sem ég treysti ekki Bókinni með svörin til að taka fyrir mig.
-K

Friday, March 7, 2014

Fröken Flutningar

Nú er vika síðan að ég flutti í elsku Kjarró og mikið er ég glöð með lífið!
Hér er engin blokkarfýla og enginn sem stelur fötum né handklæðum. Ég nýt þess að geta eldað og að geta setið í sófa, en ekki eytt hverri vökustund í/á rúminu. 
Vonandi er flutningarbrjálæði mitt búið í bili því að ég var að telja hversu oft ég hefði flutt síðan 2009 (árið sem ég flutti fyrst að heiman) og úr því kom að það var 9 sinnum! 
Setberg-Kirkjuteigur
Kirkjuteigur-Setberg
Setberg-Lyngberg
Lyngberg-Brynjólfsbúð
Brynjólfsbúð-Setberg
Setberg-Ljósheimar
Ljósheimar-Sjávargata
Sjávargata-Bergþórugata
Bergþórugata-Kjarrhólmi

ER ÞETTA NORMAL?! 

Greyjið fólkið í kringum mig! Ég enda á að þurfa að kaupa þessa íbúð því ég hreinlega get ekki hugsað mér að pakka og flytja einu sinni enn. 

-K

Hræðslur og hlaup

Í gær skellti ég mér í CardioFit eins og svo oft áður.
Hver tími er mismunandi í CardioFit og ég veit aldrei hverju er hægt að eiga von á.
Tíminn í gær byrjaði á upphitun, sem að þessu sinni var í bardagaíþróttastíl. Það var hressandi og kveikti smá í mér þráina sem blundar þarna niðri í maga hjá mér, að fara að æfa box.
Að hnefaleikum loknum var komið að því að hefja tímann af alvöru. 
Þegar að ég áttaði mig á að við ættum að fara í boðhlaup hélt ég að mér yrði allri lokið! 
Þarna var ég mætt 10-15 ár aftur í huganum í íþróttahúsið í Þorlákshöfn, með stresshnút um að ég myndi bregðast liðinu mínu með of hægum hlaupum. Ó nei hugsaði ég og langaði helst að vippa mér út  og fara heim. 
Ég lét mig þó hafa það og reyndi að kveikja á keppnisskapinu (sem er svo allt of lítið).
Ég var fjórða í röðinni að hlaupa og ég gíraði mig upp í sprettinn. Ég þaut af stað, yfir og til baka og komst að því að ég var bara ekkert svo léleg! Með hverri ferðinni varð ég spenntari og hreinlega hlakkaði til þegar að það kom að mér.
Þar með komst ég yfir hatur og hræðslu mína á boðhlaupum!
Ég á margt fyrir höndum þar sem að ég þarf að læra að fara í handahlaup. Mér finnst ég ekki geta komist í gegnum lífið lengur án þess að fara allavegana eitt skrambans handahlaup.
Eftir það ætla ég að læra að standa á höndum og hlaupa svo í Reykjavíkur maraþoninu. (er einhver til í að minna mig á að skrá mig?)
Já kannski ég fari að rifja upp hvernig á að fara í krabbastöðu fyrst ég er að þessu, þar sem að ég masteraði það aldrei neitt sérlega vel sem barn. 
-K