Friday, November 29, 2013

Prófatíðar - ráð!

Í prófatíð er nauðsynlegt að vera með plan!
Í gær var FISKIFÝLA inni á lesstofu. Það er tvennt í stöðunni.
a) Einhver var að borða harðfisk
b) háskóladömurnar eru almennt hættar að þrífa sig!

Klukkan hálf níu á föstudagsmorgun var strákurinn við hliðina á mér að gæða sér á heimatilbúnu pasta með gráðostasósu. Er það ekki bannað?! Ég var með mygluostafýluna í nefinu langt fram eftir degi.
Einnig finnst mér mjög vafasamt að fá sér pasta svona snemma að morgni, það er eitthvað gruggugt við þennann náunga.
Ég er hinsvegar alltaf með survival pack með mér þegar ég fer upp á lesstofu að reyna að kramma inn lærdóminum


Hlýjir sokkar. 
Mér verður svo oft kalt og hvað þá þegar ég sit kyrr að lesa!
Ég reyni líka að muna eftir inniskónum mínum, svo gott þegar maður þarf að skreppa fram, nennir ekki í skóna og vill ekki vera manneskjan sem gengur um ganga Háskólatorgs skólaus. 

Góður handáburður, ekkert verra en þurrar hendur!

Hlý auka peysa! 
Eins og áður hefur komið fram er mér voða kalt þegar ég er að læra

Góður varasalvi, maður þornar svo upp í háskólanum. Þurrt háskólaloft í bland við svita, tár og hósta frá öðrum námsmönnum.

Einstöku trít í hádeginu eða kvöldmatnum! 
Það að fara út af lesstofunni getur gert ansi mikið fyrir sálartetrið (og mallakút)

 Hafa eitthvað að gera inn á milli.
Mér finnst voða fínt að teikna í lærdómspásum. 
Ef ég fer að horfa á þátt í hálftíma þá flýgur heilinn á mér of langt burt.

Góður morgunmatur sem endist manni áfram.
Maður hefur engann tíma til að vera síétandi!

Hámark
Auðveldasti maturinn, tekur eina mínútu að drekka og maður verður saddur.


Eitthvað til að hlakka til. 
Elsku jólasmákökurnar frá mömmu, þær lækna öll andleg vandamál! (nema kannski fitu-complexa)
Ég hlakka svolítið til að sjá hvað ég fæ í skóinn á aðfangadag frá Setbergs-sveinka!
Ég er nú einu sinni litla barnið og það má ekki rjúfa hefðina.

Gangi ykkur öllum vel í prófunum kæru námsmenn.
Þið hin, gangi ykkur vel að finna jólagjafir, hlusta á jólatónlist, borða mandarínur og smákökur og að njóta lífsins í desember! 
-K

Tuesday, November 26, 2013

Sá tími ársins!

Nú er sá tími ársins sem allar lesstofur eru stútfullar af örvæntingafullum nemendum.
Eftir tvo daga af 13 klst lærdómi er ég orðin ansi spennt fyrir því að klukkan slái 12 á hádegi þann 16. desember! Þá skal farið í Nudd og Spa og hver veit nema að maður fari all in og taki mánudagsdjamm.
20 dagar í jóla"frí", sjibbí!

Á lesstofunni í dag heyrðust uppgjafarstunur frá öðrum hverjum nemanda og ég sá meðal annars þrjá nemendur leggja sig í gott korter fram á borðið (okei kannski var ég sá þriðji, en það var bara í fimm mínútur, lofa!)

Ég fæ svipuð einkenni og þær sem eru ófrískar þegar ég er í prófum! Hormónin fara á svaka djamm hjá mér og í dag lenti ég í því að ég ætlaði að fara að hósta en fór eiginlega næstum að gráta í staðinn. Ég las líka sultu slaka frétt um að einhver iphone sími væri kominn í leitirnar og þá ætluðu flóðgáttirnar af stað. Ég var snögg að loka fréttinni og halda áfram lestri! 

Ég held ég verði að skella mér í sund, plokkun og litun og helst lýtaaðgerð til að sporna gegn prófljótunni sem er ofboðslega nálægt því að bíta mig í rassinn.

6 dagar í fyrsta próf

-K

Monday, November 25, 2013

Sjálfs-greinarinn

Dagurinn byrjaði á því að ég olnbogabraut mig kl hálf 8 í morgun með því að vakna hálf dreymandi og dúndra olnboganum í náttborðsbrúnina mína. Sérlega góð vakning á mánudagsmorgni!
Ég er að sjálfsögðu búin að sjálf-greina mig með brotinn olnboga (enda í hjúkrun, á fyrsta ári gott fólk!) 
Til viðbótar við brotinn olnboga hef ég greint mig með járn- og vítamínsskort (alltaf kalt, alltaf þreytt), hjartagalla og hlauparahné (enda massívur hlaupari í gegnum árin!) 

Ég hef í gegnum árin verið ansi góð í að sjúkdómsgreina mig sjálf, þökk sé internetinu! 
Meðal annars hef ég greint mig með hin ýmsu krabbamein, nýrnabilun, skorpulifur og heilablæðingar. 
Ég hef svo sem ekkert látið reyna á prófanir á þessum sjúkdómum hjá doktor Helga en ég er svo sem ekkert sérlega framtakssöm í læknaheimsóknum!

Ég er til dæmis manneskjan sem fékk innlegg þegar ég var svona 10 ára, eftir viku á innleggjunum át hundur vinkonu minnar þau svo þau voru ónothæf. 
Eitthvað fyrirfórst það að Kolbrún fengi ný innlegg þannig að ég fór litlum 13 árum síðar í göngugreiningu. Nú er liðið eitt og hálft ár frá göngugreiningu og ég er ekki enn búin að panta innleggin (ætlaði bara að panta þau í september 2012).

Ég verð líklega skakkasta gamla konan á elló í framtíðinni! 

Ég hinsvegar dreif mig í sjónmælingu fyrir viku vegna sjónleysis og þreytu í augum, og viti menn, ég þurfti að sjálfsögðu sterkari gleraugu! Þannig að ég bíð spennt eftir að fá nýju gleraugun (sem koma eftir ca 2 vikur). Er bara með hjartað í buxunum yfir því að gleraugun séu kannski ljót! Ég tók nefnilega ekki nema 20 mínútur í að velja gleraugu og það þykir mjög óvanalegt fyrir fröken óákveðna!

Eftir 13 klst af lærdómi langar mig minnst í heimi að fara að sofa því að ég veit að það bíður mín jafn "frábær" dagur og í dag! 16. desember verður fallegasti dagur ársins!

-K


'