Í tilefni snjóstormsins sem á að geysa um suðurlandið í dag langaði mig að deila traumatískri sögu af upplifun minni einn örlagaríkann snjódag.
Ég man eftir því hvað það komu alltaf stórir snjóskaflar þegar ég var lítil.
Í mínum minningum var aldrei slydda (enda er hún send til okkar af lúsífer til þess að kvelja okkur) það voru bara allir garðar fullir af snjó og skaflar á hæð við hús. Við stunduðum það oft krakkarnir að klifra upp á þak á kompunni heima á Reykjabraut 21 og stökkva í snjóskafla. Það var oftast lítið mál því að skaflinn náði vanalega langleiðina upp að kompuþaki.
Eitt snjó atvik er þó brennt í minni mitt.
Snjóhúsa atvikið
Við Hekla vorum sem svo oft áður að leika okkur í massíva snjónum sem hafði sest að í bakgarðinum á Reykjabrautinni. Við vinkonurnar vorum auðvitað svo kappklæddar að við áttum frekar erfitt með hreyfingar. Við vorum að vinna í því að búa til snjóhús og ég var höfð í því að búa til snjógöngin sem áttu að leiða inn að húsinu. Þarna lá ég á bakinu að búa til hol göng með því að klóra í snjóinn þegar að göngin féllu saman.
Ég var föst, mér var kalt og ég gat ekki andað fyrir snjó.
Hekla lét mig ekki dúsa lengi þarna og gróf eftir mér eins og herforingi, en ég man ennþá hræðilegu innilokunar-köfnunar tilfinninguna sem kom yfir mig. Sem betur fer er Hekla ekki ein af þeim sem hlær að óförum annara, eins og þegar einhver dettur (hún er meira týpan sem vill setja Aloe Vera á allt og hringja svo í sjúkraþyrluna).
Ef hún hefði hlegið eftir þessa dramatísku upplifun mína hefði þessi leik dagur í garðinum líklega endað með því að hún fengi skóflu í andlitið.
Enn þann dag er ég pínu hrædd við snjó, gæti ekki hugsað mér að fara í kraft galla (það gæti reyndar haft eitthvað að gera með hvað þeir eru ólekkert) og er með innilokunarkennd.
Ekki náðum við stöllur að byggja svona myndarlegt hús
-K