Dagurinn byrjaði á því að ég olnbogabraut mig kl hálf 8 í morgun með því að vakna hálf dreymandi og dúndra olnboganum í náttborðsbrúnina mína. Sérlega góð vakning á mánudagsmorgni!
Ég er að sjálfsögðu búin að sjálf-greina mig með brotinn olnboga (enda í hjúkrun, á fyrsta ári gott fólk!)
Til viðbótar við brotinn olnboga hef ég greint mig með járn- og vítamínsskort (alltaf kalt, alltaf þreytt), hjartagalla og hlauparahné (enda massívur hlaupari í gegnum árin!)
Ég hef í gegnum árin verið ansi góð í að sjúkdómsgreina mig sjálf, þökk sé internetinu!
Meðal annars hef ég greint mig með hin ýmsu krabbamein, nýrnabilun, skorpulifur og heilablæðingar.
Ég hef svo sem ekkert látið reyna á prófanir á þessum sjúkdómum hjá doktor Helga en ég er svo sem ekkert sérlega framtakssöm í læknaheimsóknum!
Ég er til dæmis manneskjan sem fékk innlegg þegar ég var svona 10 ára, eftir viku á innleggjunum át hundur vinkonu minnar þau svo þau voru ónothæf.
Eitthvað fyrirfórst það að Kolbrún fengi ný innlegg þannig að ég fór litlum 13 árum síðar í göngugreiningu. Nú er liðið eitt og hálft ár frá göngugreiningu og ég er ekki enn búin að panta innleggin (ætlaði bara að panta þau í september 2012).
Ég verð líklega skakkasta gamla konan á elló í framtíðinni!
Ég hinsvegar dreif mig í sjónmælingu fyrir viku vegna sjónleysis og þreytu í augum, og viti menn, ég þurfti að sjálfsögðu sterkari gleraugu! Þannig að ég bíð spennt eftir að fá nýju gleraugun (sem koma eftir ca 2 vikur). Er bara með hjartað í buxunum yfir því að gleraugun séu kannski ljót! Ég tók nefnilega ekki nema 20 mínútur í að velja gleraugu og það þykir mjög óvanalegt fyrir fröken óákveðna!
Eftir 13 klst af lærdómi langar mig minnst í heimi að fara að sofa því að ég veit að það bíður mín jafn "frábær" dagur og í dag! 16. desember verður fallegasti dagur ársins!
-K
No comments:
Post a Comment