Thursday, January 2, 2014

Velkomið vertu 2014!

Þá er komið árið 2014 kæru vinir (svona ef einhver er búin/nn að vera í dái í einhvern tíma, var ekki alveg viss og ákvað að kíkja á bloggið mitt til að fá staðfestingu á því hvaða ár væri runnið upp).

Þetta ár verður árið mitt. (segir maður það ekki alltaf?) Þetta ár er samt slétt tala, og einhverra hluta vegna eru sléttar tölur bara betri en oddatölur. Ekki veit ég af hverju mér finnst þetta þar sem ég er sjálf fædd á oddatöludegi, í oddatölumánuði á oddatöluári!
Hver er sinnar gæfu smiður og ég ætla að gera mitt allra besta í að nýta árið til hinns fyllsta.
Að vísu byrja ég árið á sex daga fríi með ekkert planað nema hreyfingu og slökun. (falið hjálparkall, vinsamlegast einhver að biðja mig um að koma að gera eitthvað skemmtilegt).
Árið 2014 ætla ég að rækta sjálfið, vera hamingjusöm og fara í amk eina utanlandsferð.
Mig langar að geta tekið á móti því sem verður á minni leið á árinu af æðruleysi og ég ætla ekki að láta gjörðir annara hafa áhrif á hvernig mér líður.


Nú fara útsölurnar að byrja og þá verður fröken Kolbrún að halda sig sem lengst frá búðunum! 
Ég er nefnilega útsölufíkill og geri sjaldan góð kaup á þeim því að ég kaupi allt of mikið af fötum sem ég "fer örugglega í" en geri aldrei. Þið hin sem kunnið að nýta rökrétta hugsun á útsölubrjálæðinu, kaupið ykkur eitthvað ótrúlega fallegt, þið eigið það skilið!

Það er hefð í minni fjölskyldu að horfa á Rúv á miðnætti, sjá gamla árið fjara út á skjánum og það nýja koma af krafti. Ég gerði það að sjálfsögðu um áramótin og ég verð að segja að þrátt fyrir að 2013 hafi verið stórgott ár kveð ég það án trega! Ég veit nefnilega að 2014 verður einfaldlega miklu, miklu betra! Auðvitað getur maður orðið fyrir áföllum á árinu en það er hvernig viðhorf maður hefur til erfiðleikana sem skiptir máli. Á árinu verð ég til dæmis gallblöðrunni fátækari, þá hlýt ég að léttast um einhver 300 gr! 
Always look on the bright side of life.

Verið góð við hvort annað krúttin mín
-K

No comments:

Post a Comment