Í dag var hræðilega mikill mánudagur. Eiginlega allt of mikill.
Ég náði að rennbleyta mig þegar ég var að baða í vinnunni í dag, ég sofnaði í korter í lazy boy í vinnunni (og hraut örugglega smá með því!)
Eftir vinnu fór ég í leiðangur í Nettó með Heklu og Kristínu, þar keypti ég fljótandi þvottaefnisbrúsa, að sjálfsögðu rifnaði pokinn, brúsinn datt í jörðina og splundraðist. Jess! Þvottaefni út um allt.
Kristín Dís var næstum því búin að enda líf mitt tvisvar með mánudagsumferðinni í borginni og svo helltist úr fullum popp poka á gólfið hjá mér. Held það sé málið að fara að sofa til þess að hreinsa þennann mánudag burt!
Kvöldið fór í breytingar á Beggó, ekki seinna vænna þar sem að fjórir dagar eru eftir af búskapi mínum hér. Maður verður nú að njóta síðustu dagana.
Verra er að ég fann betri uppröðun núna, hefði verið fínt að fatta þetta fyrir 6 mánuðum.
Ég er byrjuð að pakka og fara í gegnum dótið mitt og fann ýmislegt áhugavert í skápunum.
Það er nefnilega þannig að þegar að ég fer í matvörubúð á ég það til að vera frekar hvatvís í vali.
Þegar ég flutti hingað fyrir 6 mánuðum keypti ég ýmislegt sem bara varð að vera til í skápunum.
Til dæmis:
Kjúklingabollur frá Ora - þær eru í niðursuðudós, myndi aldrei detta í hug að borða þetta en einhverra hluta vegna varð þetta að rata í körfuna.
Dijon sinnep - ég borða eiginlega ekki Dijon sinnep og hef ekki hugmynd um hvað ég hef ætlað að nota það í.
Kakó súpa - ég ætla nú ekki að ljúga, kakó súpa er með því betra sem ég fæ! Ég hinsvegar þekki mig nógu og vel til þess að vita að ég ætlaði mér aldrei að elda hana, ég bara varð að eiga hana uppi í skáp.
Te - ég drekk ekki te og finnst það almennt vont. En hey, ég get þó boðið gestum upp á möguleikann á tedrykkju!
Ég tel líklegast að þetta fari allt í tunnuna, frekar en að ég flytji þetta með mér.
Ég gæti líka haldið matarboð. Í boði væru kjúklingabolur með dijon sinnepi, kakó súpa í eftirrétt og te til að sötra restina af kvöldinu. Hver vill koma í mat?
-K
No comments:
Post a Comment