Mikið hefur gerst á síðustu dögum og ég er bara spennt að fara að standa á eigin fótum sem miðbæjarrotta næstu 7 mánuðina!
Stundum er maður alveg ofboðslega heppinn! Það tók mig 11 klst að leita, skoða og fá íbúð. Fyrsta íbúðin sem ég skoðaði meira að segja. Ég tel það vera nokkurskonar met, enda hefur maður heyrt um fólk sem leitar og leitar og leitar í fleiri fleiri mánuði.
Að vísu hafði ég ekki miklar kröfur, ég vildi bara stað fyrir rúmið mitt, eldunaraðstöðu, stað til að pissa á og skola af mér. Viti menn, ég fékk allt þetta! Þetta er að vísu allt troðið saman í 25 fermetra, en ég tel það nú vera nóg fyrir námsmann sem mun hvort sem er búa uppi í skóla næstu 2 mánuði (og vonandi næstu 5 eftir áramót).
Ég flyt á morgun (fimmtudag) og auðvitað fer ég í tilheyrandi Ikea ferð á föstudaginn, það er nauðsyn!
Já það koma stundum svona ofboðslega góðir dagar þar sem allt gengur upp.
Svo koma hinir dagarnir sem vega svona svakalega upp á móti...
Við Hekla gátum ekki sofnað fyrr en hálf 3 því að við gátum ekki hætt að spjalla.
Þar með urðum við ekki einu sinni varar við að vekjaraklukkan hringdi klukkan 6:05 til að senda okkur í ræktina.
Þar með var engin rækt.
Vöknuðum klukkan 8:04. Ég hugsaði, ahh ég sleppi bara fyrsta tímanum, hann er hvort sem er alltaf bara að lesa af glærunum. Seinni tímann sá ég mér samt knúinn að mæta í, þar sem að við erum að læra um sítrónusýruhring í lífefnafræði og ég er týndari en Valli í þeim efnum!
Í gær, eins og allir Íslendingar vita, var snjór í höfuðborginni. Auðvitað er Kolbrún litla ekkert búin að spá í vetradekkjum og Grási spígsporar um á snarsléttum sumardekkjum! Þar með fór það, ekki gat ég notað bílinn minn fyrr en seinnipartinn. Þvílík lukka að ég gisti hjá Heklu, þar sem að það tekur ca 6 mínútur að labba í skólann hjá mér.
Ég gekk af stað, á strigaskóm (auðvitað enda alltaf jafn vel gíruð í veturinn). Það lak bráðinn snjór af tré á höfuðið á mér á leiðinni, ég blotnaði í fæturnar, og var næstum því dottinn fyrir framan fullann strætó sem spólaði upp brekkuna við hliðina á mér.
Þegar ég hinsvegar mæti í tímann komst ég að því að ég ruglaði saman tímunum og skrópaði sem sagt í vitlausum tíma! Mikilvægi tíminn var klukkan 8 og svo öfugt.
Ennþá er ég týnd í sítrónusýruhring og búin að læra mína lexíu. No more skróping!
Hlakka til að fá ykkur öll í kaffi á Bergþórugötuna (ath hleypt inn í hollum vegna plássleysis, ath2 á ekki kaffivél svo það verður boðið upp á vatn)!
-MiðbæjarK
No comments:
Post a Comment