Monday, November 21, 2016

Heilræði Kolbrúnar: D-vítamín

Nei hææ, langt síðan síðast!
Mig langaði að gera heiðarlega tilraun til að byrja með smá heilsutips og heilræðishorn hérna á þessari undirfögru og rykföllnu bloggsíðu.
Það fyrsta sem að mig langaði að tala um var mikilvægi D-vítamíns.

Ef þú ert að lesa þetta eru ca 98% líkur á að þú búir á Íslandi. Við fáum afar takmarkaðann skammt af sól að meðaltali. Vissir þú að aðaluppspretta D-vítamíns í náttúrunni er einmitt úr sólarljósi?
Á veturnar er sólin ekki nógu og hátt á lofti hjá okkur til að D-vítamín myndist í húðinni.

Líkaminn okkar getur unnið D-vítamín úr sólarljósinu, fæðu og bætiefnum. Siðir og venjur í samfélaginu eru hinsvegar talsvert breyttar frá fyrri tímum. Við lifum hratt og tíminn er af skornum skammti. Við eyðum langflest litlum tíma úti og erum mörg löt við að borða fisk (guilty!)

Vissir þú að það eru mikil tengsl á milli D-vítamíns og krabbameins? D-vítamínskortur hefur einnig verið tengdur við fleiri langvinna sjúkdóma eins og t.d. sjálfsofnæmissjúkdóma og hjartasjúkdóma.

D-vítamínmagn undir 20ng/ml tengist við 30-50% aukningu á líkum á krabbameini í ristli, blöðruhálskritli og brjóstum. 
Veistu ekkert hvað talan 20ng/ml þýðir? Það þykir mér ekki skrítið. En til þess að viðhalda þessu magni þarftu að taka á milli 400-800 alþjóðaeiningar (skammstafað ae) af vítamíninu á dag. Hægt er að kaupa D-vítamíntöflur með misjöfnum styrkleika. Sjálf tek ég 1000ae töflur því að ég er fáranlega gleymin týpa og man eftir því að taka vítamínin mín ca 3-4 í viku.
Aðeins um 17% kvenna eru að fá uppfylltann sinn ráðlagða dagskammt á Íslandi. Finnst þér það ekki sturlað?!

En hvað gerir D-vítamín fyrir okkur?
Það gegnir mikilvægu hlutverki fyrir kalkbúskapinn í líkamanum og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði (lítið kalk = auknar líkur á beinþynningu = auknar líkur á beinbrotum = langar þig að vera gamla konan sem er aaalltaf að brotna?)
Það er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina.
Er talið geta stuðlað að auknum vöðvastyrk (I'm talking to you kraftlyftingapróteindrekkandi krúttin mín!)

Ef þú heldur að það sé kannski bara sniðugt að borða ÓTRÚLEGA MIKIÐ af D-vítamíni til að þú fáir sko heldur betur ekki krabbamein (!!!!) Þá ætla ég að biðja þig um að bakka rólega frá vítamínglasinu og lesa áfram.
D-Vítamín er nefnilega fituleysanlegt vítamín. Það þýðir að þú skilir ekki út vítamíninu ef þú tekur of mikið af því heldur safnast það upp í líkamanum og verið skaðlegt fyrir þig. S.s. BANNAÐ AÐ ÓVERDÓSA! En ef við erum að taka upp D-vítamín úr sólarljósi þá hættir húðin að taka það upp eftir 10-15 mínútur. Þess vegna færðu ekki D-vítamín eitrun af því að slæpast í sólinni á Tenerife með einn bleikann cocktail við hönd. (Þú gætir hinsvegar endað með slembifínt sortuæxli ef þú passar þig ekki, en það er kannski efni í annan pistil).

Hvaðan fáum við D-vítamín úr fæðunni?
Feitum fiski (lax, síld, silung, sardínum, lúðu), lýsi, eggjarauðum. Matvælaframleiðendur hér á landi eru margir meðvitaðir um þarfir okkar íslendinga og því er hægt að kaupa d-vítamínbætta fæðu. Fjörmjólk, stoðmjólk, d-vítamínbætt léttmjólk og svo eru sumar tegundir af jurtaolíum og smjörlíkjum sem búið er að bæta í auka D.

Mig langar að kasta fram einni sláandi staðreynd úr bókinni Máttur matarins - fæða sem forvörn:
"Rannsókn á konum sem voru með D-vítamínmagn undir 12ng/ml leiddi í ljós að þæru voru 253% líklegri en ðrar til þess að þróa með sér ristilkrabbamein á næstu 8 árum." Nei, þetta er ekki innsláttarvilla. 253%!!


Hvað eigum við að taka mikið af D-vít inn á dag?

Ef þú ert ungabarn og upp í 9 ára áttu að taka inn 10µg eða 400ae (frá 1-2 vikna)
Ef þú ert 10 ára - 70 ára áttu að taka 15µg sem samsvarar 600ae
Ef þú ert 71+ þá áttu að taka20µg sem samsvarar 800 ae

Svo ef þú tekur ekki 10ml af þorskalýsi á dag eða 600ae töflu af d vítamín þá skaltu skunda þér út í búð eða apó og kaupa annaðhvort! Ef þér finnst lýsi ógeð, þá flott! Þú tekur töflur (þær eru sko til roosa rooooosa litlar! Þær sem ég tek eru ponsulitlar og eru í brúnu glerglasi með appelsínugulum miða).

Beint í búðina meððig!

P.S. Ég hafði hugsað mér að skrifa svona pistla inná milli próflesturs (já.. ég veit ég er ótrúlega góð í að finna mér annað að gera þegar að ég á að vera að læra undir próf, en það heldur geðheilsunni gangandi :) ) Er eitthvað spes sem þið mynduð vilja lesa um hjá mér?

Ást & friður,
Kolbrún, hjúkka to be (class of 2018)



Heimildir: Lýðheilsustöð og bókin Máttur Matarins - Fæða sem forvörn eftir Unni Guðrúnu Pálsdóttur og Þórunni Steinsdóttur. 

No comments:

Post a Comment